Ferðast um fornar slóðir
Forsaga:
Þorkell Jóhannsson, Ögmundur Gunnarsson, Reynir Engilbertsson og Karl Valgeir Jónsson, allir kennarar við Garðaskóla í Garðabæ, lögðu upp í gönguferð frá Unaðsdal við Ísafjarðardjúp til Reykjarfjarðar nyrðri á Ströndum með allan búnað á bakinu. Fylgir hér lýsing á þessari fjögurra daga gönguferð. Lýsinguna skrifaði Karl.
Frá Unaðsdal mánudaginn 23. júlí.
Við ókum rakleiðis til Hólmavíkur á veiðibílnum DíDí og gerðum innrás á heimili Ingimundar nokkurs Jóhannssonar.
Ingimundur er bróðir Þorkels samferðamanns og göngugarps. Ingimundur ók okkur í bíl sínum sem leið liggur frá Hólmavík til Unaðsdals. Hann ók alla leið upp í heiðina eins langt og færðin leyfði. Slóðin endaði í stórum skafli í u.þ.b. 320 metra hæð upp á Heimstafelli utan í Miðfelli.
Þarna var þá komin þoka og skyggni ca 100 til 150 metrar og þétt rigning.
Klukkan var u.þ.b. þrjú um eftirmiðdaginn og við þessar óhuggulegu kringumstæður settum við stefnuna á Dynjandisskarð. GPS mælirinn sýndi að þetta væri rúmlega 5 km í beina línu. Við kvöddum Ingimund, mér sýndist hann ekki öfunda okkur af þeim aðstæðum sem við vorum komnir í.
Innskot: Ingimundur sá einnig um að koma bílnum okkar (DíDí) frá Hólmavík að Eyri við Ingólfsfjörð. Eru honum og konu hans færðar sérstakar þakkir fyrir einstaka gestrisni og þessa mikilvægu aðstoð.
Tilbúnir í hvað sem er á Öldugilsheiði. Ingimundur tók myndina. (Ögmundur, Reynir, Karl og Þorkell)Við völdum að ganga sem mest á blautum snjóbreiðum en þess á milli gengum við yfir eitthvert hið mesta grjótapal sem ég nokkru sinni hef séð. Þarna var hver grjóthellan annarri verri, oftast upp á rönd og velja þurfti hverju fótspori vandlega réttan farveg. Ég braut annan göngustafinn minn í þessum torfærum Öldugilsheiðarinnar. Ferðin í Dynjandisskarð tók rúmlega tvo klukkutíma.
Þegar í Dynjandisskarð kom (sem GPS tækin leiddu okkur nákvæmlega á), fundum við bæði vörður og aflagða símastaura sem þarna voru settir upp á sínum tíma. Nokkuð birti yfir þegar neðar dró í skarðið og á endanum blasti við Leirufjörður og bærinn Dynjandi. Ekki var þó nógu bjart til þess að við kæmum auga á Flæðareyri, sem er örlítið norðar við Leirufjörðinn vestanverðan. Nú hafði Ögmundur týnt landakortinu með GPS punktunum á, en við áttum fleiri eintök af kortum, sem betur fór.
Næsti GPS punktur var Kjós, sem er smávogur inn úr Hrafnsfirði. Eftir að komið var fyrir öxlina á Hádegisfjalli blasti við botn Leirufjarðar og sumarbústaður sem stóð á bakka jökulsár allljótrar, kölluð Fjörðurinn. Hún flæddi nánast yfir allan dalbotninn. Þessa kolmórauðu á þurftum við að vaða og höfðum kviðið því nokkuð. Við völdum að fara frekar ofarlega yfir flæmið því nokkuð hásjávað var. Breidd “Fjarðarins”, sem var samsuða Jökulsárinnar, Öldugilsár og Landár var upp undir 1 kílómetri.
Fljótið (Fjörðurinn) var kolgruggugt, grunnt og botninn varasamur. Þurfti að þræða rétta leið til að sökkva ekki í leðjuna. Eyrar voru víða til að færa sig upp eða niður eftir og velja þannig árennilegustu staðina yfir lænurnar.
Hér má sjá yðar einlægan klæddan í laxapoka og Reyni berfættan í bandaskóm. Það grillir í Þorkel rétt framan við sumarbústaðinn. Ögmundur tók myndina.Þegar hér var komið sögu voru sumir okkar orðnir blautir í fæturna og jafnvel upp í klof, því menn voru í misvel vatnsvörðum skóm og buxum. Þokell snaraðist úr brók sinni og í vaðskóna (létta strigaskó), en óð að öðru leyti berfættur af stað. Hann valdi bestu leiðina yfir af mikilli snilld. Við hinir gerðum slíkt hið sama að öðru leyti en því að ég og Ögmundur fórum ekki úr buxunum en klæddu fætur okkar í laxapoka og fórum í vaðskóna utanyfir. Reynir óð berfættur eins og Þorkell en vaðskór hans voru því miður bandaskór sem er afleitur búnaður þar sem sandur og smásteinar fóru upp í skóbotnana og gerðu hann sárfættan.
Þegar yfir var komið var sumarbústaðurinn á bakka Jökulárinnar kannaður. Þorkell var langfyrstur yfir og hafði komið sér í brækur sínar og gönguskó og bankað á dyr bústaðarins. Það var viss uppörvun fyrir okkur hina blauta og kalda, að sjá það að í bústaðnum var fólk sem bauð honum inn.
Hjónin í Leirufirðinum voru sannkallaðir englar af himnum sendir okkur til hressingar. Þetta voru þau Sólberg og Lucie frá Bolungarvík (Sólberg er fyrrverandi sparisjóðsstjóri í Bolungarvík). Þau eru eigendur að landi Leirufjarðar og Kjósar. Þvílík frábær móttaka þessara góðu hjóna. Við vorum drifnir úr blautum fötum og allt hengt til þerris yfir heitri Sóló eldavélinni. Sjálfir sátum við fáklæddir framan við öflugan gasofn og hituðum okkar ísköldu fætur eftir sullið í jökulánni. Þar var okkur borið heitt kaffi með kleinum og alls konar kextegundum. Þarna stoppuðum við í u.þ.b. tvo klukkutíma eða ca. frá kl 7 til 9 og endurnýjuðum verulega krafta okkar.
Nú héldum við áfram yfir í Kjós með það fyrir augum að tjalda þar. Við vorum miklu hressari en áður, rigningin að mestu hætt þó enn væri þungbúið, en bakpokarnir voru orðnir blautir og okkur fannst þeir væru orðnir óeðlilega þungir. Útsýni og fjalladýrð var því miður mjög af skornum skammti og vonlaust að taka bærilegar ljósmyndir. Þó fylgja sögunni ótrúlega vel heppnaðar myndir úr ferðini.
Tjaldað í KjósKlukkan 10 tjölduðum við í Kjósinni og hituðum okkur kvöldmat og skriðum í tjöld og hugðumst sofa. Ekki varð okkur Reyni mjög svefnsamt, því um nóttina gerði ennþá meiri rigningu og tjaldið hélt ekki nógu vel vatni. Það var þó bót í máli að tiltölulega lygnt var.
Svefnpokar okkar blotnuðu þó ekkert að ráði, en vandamálið kom verulega í veg fyrir góðan nætursvefn. Ögmundur og Þorkell sváfu hins vegar vel, enda þeirra tjald í háklassa.
Frá Kjós þriðjudaginn 24. júli.
Við fórum á fætur um kl. 7:30 og hituðum okkur súpur og núðlur og borðuðum vel, þó frekar af nauðsyn en góðri lyst. Eftir að hafa klætt okkur í blauta skóna og sokkana og komið trússi okkar á bakið, héldum við sem leið lá inn í botn Hrafnsfjarðar. Nú var súld og þoka og útsýni afar lítið sem fyrr. En hér lá þó slóð á bökkunum og í fjörunni sem gott var að ganga í. Eftir u.þ.b. 9 km, eða tæplega 3 klst göngu, komum við í slysavarnaskýlið í botni Hrafnsfjarðar. Á þessari leið eru nokkrar bergvatnsár sem voru vatnsmiklar um þessar mundir og var sumsstaðar seinlegt að finna stikluvöð sem óhætt var að komast yfir á.
Fjalla-Eyvindi vottuð virðing okkar. Nafn hans er klappað í steinhelluna undir krossinumVið skoðuðum húsatóftir á Hrafnsfjarðareyri og Skipaeyri og vottuðum gröf fjalla-Eyvindar virðingu okkar. Mynd þessi sýnir þá athöfn. Þorkell tók myndina.Í skýlinu hituðum við okkur hádegismat, enda klukkan orðið 12 á hádegi. Núðlur voru á boðstólum, en heitt kakó með kexi í eftirmat. Eftir góða hvíld var svo ráðist til uppgöngu á Skorarheiðina. Fyrst fylgdum við ánni sem er samruni allmikillar jökulsár sem kom frá hægri (sunnan) úr skarðinu og mun minni bergvatnsár, Skorarár, sem kom frekar frá vinstri (austan) úr skarðinu (misvísandi á sumum kortum). Fallegur klettur var þarna á vinstri hönd, svokallaður Gýgjarsporshamar. Stór og vönduð bogabrú var á ánni sem við fórum yfir og fylgdum svo gönguslóðinni upp á háheiðina að Skorarvatni. Það er í rétt um 200 metra hæð.
Hér reyndum við að ná símasambandi á NMT farsíma minn sem reyndis árangurslaust. Ekkert samband hafði þá náðst frá því við vorum staddir á Öldugilsheiði ofan við Dynjandisskarð.
Nú grilltum við, í gegnum þokuna, víðáttumikinn dal og nokkuð breiðan fjörð. Þetta var Furufjörður. Enga sérstaka fegurð var hægt að sjá í öllum þessum drunga, þó gat maður ímyndað sér að hér væri fallegt á góðviðrisdegi. Þetta var grösugur dalur, en mikið af mýrum og fjöldi lækja og minni áa rann úr hlíðum hans. Í miðjum dalnum rann svo jökuláin, Furufjarðarósinn, kolmórauð og ljót.
Þegar klukkan var orðin tæplega þrjú stóðum við frammi fyrir því annaðhvort að sleppa því að fara í Furufjörðinn og ganga áfram greinilegan göngustíginn í fjallshlíðinni hægra megin (austan megin) og auka hæð okkar nokkuð til að komast í Svartaskarð (440 m) og þaðan í Þaralátursfjörð og Reykjarförð, eða hins vegar að láta nægja að fara ekki mikið lengra að þessu sinni og ganga niður í Furufjörðinn og gista í slysavarnaskýlinu þar.
Við völdum seinni kostinn þrátt fyrir að í Reykjarfirði biði eftir okkur rjúkandi kjötsúpan. Við vorum hreint og beint orðnir svo blautir og kaldir að við urðum að velja seinni kostinn, þótt það hefði ekki verið upphafleg ætlunin. Á leiðinni niður dalinn reyndum við að halda okkur í hlíðinni norðanmegin til að forðast mýrar og kviksyndi. Þrátt fyrir það var sú leið mjög blaut og leiðinleg. Margar ár komu úr hlíðinni og sumar vart hægt að stikla öðru vísi en að fara á kaf. Reyndar skipti það ekki svo miklu máli þegar hér var komið sögu, við vorum rennblautir í gegn upp að hnjám hvort sem var.
Í Furufirði var bæði rúmgott og vel búið slysavarnaskýli. Það var mun stærra en skýlið í Hrafnsfjarðarbotni. Þarna var eldunaraðstaða og olíuofn til upphitunar með snúrum til að þurrka af sér föt. Okkur fór að líða betur. Tíminn fram á kvöld fór í að þurrka sjálfan sig, buxur, skó og sokka, sem og að elda og borða kvöldskammtinn. Þorkell sá svo til þess að Kaptain Morgan svæfði okkur vært snemma (kl 7:15) þetta kvöldið.
Miðvikudagurinn 25. júlí.
Við vökuðum snemma, eða upp úr kl. 6. og vorum loksins vel útsofnir og ekki var það verra að úti var hætt að rigna og orðið mun bjartara í lofti. Eftir að hafa hitað núðlur og súpur, smurt flatkökur og ýmislegt annað, tókum við saman saman trúss okkar og héldum af stað. Nú höfðu sokkar og buxur náð nokkurn veginn að þorna og skór tekið sig það vel að hægt var að bera á þá og vatnsverja nokkuð.
Við gengum nú í áttina að Furujarðarós og fylgdum fjörunni. Ósinn var eins og flestar þessar jökulsár, kolmórauður og ískaldur, en hvorki straumharður né ýkjadjúpur svona snemma morguns.
Við óðum Furufjarðarós með sama hætti og þegar við óðum yfir Jökulsá í Leirufirði. Þetta fljót var hins vegar ekki breitt svo að kuldakvölina tók fljótt af.
Í Furufirði. Greina má sumarhúsið stóra. Slysavarnaskýlið er niður við sjó norðan við Furufjarðarósinn og sést tæpast á myndinni. Yðar einlægur tók myndina.Þegar við höfðum þurrkað fæturna og komið okkur í gönguskóna aftur hófst hin ægilega uppganga. Kvöldið áður hittum við fólk í feiknastóru bjálkahúsi sem í Furufirði stendur. Það sagði okkur óljóslega hvar Svartaskarð væri. Það benti okkur á skafl efst í fjallinu. Fjallið var með lóðréttum hamravegg ofarlega í snarbrattri hlíðinni og snjóbreiðum upp af honum. Að komast upp þetta með 17 kg á bakinu hlaut að verða algjör þrekraun.
Síðasti spölurinn upp Svartaskarðið er eftir. Þá þurfti að fara yfir efri skaflinn. Ögmundur tók myndÞað tók okkur enda meira en þrjá klukkutíma að komast upp þetta 440 metra snarbratta klif (og geypimikla vatnsdrykkju.) Það sem gerði þetta bærilegra var að greinilegur göngustígur, vel varðaður lá í krákustígum upp fjallið. Undruðumst við, að sjá að menn höfðu troðist þetta með hesta, því hófför lágu upp stiginn, meira segja yfir allstóran skafl efst í klifinu. Klifurhestar þessir hljóta að vera afkomendur jöklaklára þeirra sem notaðir voru til rekaviðardráttar yfir Drangajökul hér á árum áður. Seinna fréttum við að einhver ferðaþjónustuaðili býður upp á að ferja farangur ferðamanna yfir þessi fjöll fyrir sanngjarna greiðslu.
Við höfðum þetta nú af á endanum með allmörgum hvíldum og án utanaðkomandi aðstoðar. Höfðum við þá reglu að hvíla okkur vel við hverja 50 metra sem við hækkuðum okkur um.
Uppi á fjallinu var komið gott útsýni og brúnin á okkur farin að léttast til muna. Hérna var rífandi símasamband og við hringdum í Reykjarfjörð til að tilkynna að við værum á leiðinni í kjötsúpuna þó okkur hefði seinkað um einn dag. Einnig hringdum við heim, hver til sín, og lýstum vosbúð okkar á liðnum dögum. Eftir stutt samtöl við okkar nánustu, héldum við áfram eftir góðum göngustígnum niður í Þaralátursfjörð. Nú var veðrið orðið allgott og okkur fannst þessi fjörður vera bara ansi fallegur. Í miðjum firðinum rann Þaralátursós og óðum við hann í vaðskónum líkt og áður er lýst. Þaralátursós var nokkuð breiður og aurar á milli. Botninn var góður og allt gekk vel.
Á bakkanum hinum megin létum við nú sólina þurrka okkur um fæturnar meðan við fengum okkur létta máltíð (hrökkbrauð og álegg) og vatn að drekka. Við vildum ekki borða mikið því við vissum að í Reykjarfirði biði kjötsúpan okkar.
Þaralátursfjörður og samnefndur ósÞá lá leiðin upp á við yfir lágan háls (um 150 m) yfir í Reykjarfjörð. Þorkeli var nú farið að leiðast að fá ekki örlítið að spretta úr spori, svo hann tók nokkurn endasprett og kom í markið um hálfri klukkustund á undan okkur.
Þegar við hinir mættum var hann búinn að tilkynna Erlu komu okkar, en hún er einn af eigendum Reykjarfjarðar, þannig að nú var kjötsúpan komin yfir eldinn hjá henni. Einnig var Þorkell búinn að fá úthlutað tjaldstæði og hafði meira að segja tjaldað sínu tjaldi.
Í Reykjafirði. Geirólfsnúpur er klettastapinn fjær. Á milli er Sigluvík.Að koma í Reykjarfjörð í sólskini og blíðu, sem nú var brostin á, var eins og að koma í sæludalinn sjálfan. Við heilsuðum upp á landeigendur auk Erlu, sem voru Ragnar og Sjöfn frá Bolungarvík. Þau voru í óða önn að undirbúa sjötugsafmæli Ragnars sem yrði eftir þrjá daga. Við drifum okkur svo að tjalda hinu tjaldinu (ef tjald skyldi kalla) og fórum síðan í sund í stórmerkilega sundlaug staðarins. Þá var komið að því að borða kjötsúpuna frægu sem var að vísu upphituð frá deginum áður. Kjötsúpan var með eindæmum góð og flatkökurnar sem fylgdu með. Á meðan við borðuðum sagði Erla okkur sögu staðarins og skýrði okkur frá staðháttum og öðrum einkennum. Dauður refur lá við dyrnar á húsi Ragnars og Sjafnar og tófuyrðlingur lék sér við krakkana sem þarna voru. Flugvél með ferðamenn og vörur lenti á flugvelli staðarins. Báturinn Húni frá Blönduósi lagðist að bryggju og skilaði ferðafólki í land og báturinn Sundhaninn frá Norðurfirði kom við á leið sinni til Hornstranda.
Ekki fór mikið fyrir fólkinu sem kom, því flestir voru þetta ættingjar, komnir til að taka þátt í afmælishátíðahöldunum og voru því ekki á tjaldsvæðinu. Tveir traktorar voru sífellt á ferðinni að og frá flugvelli eða bryggju og sjálfur ættarhöfðinginn og afmælisbarnið geystist út og suður á Toyotu Hilux á 38 tommu dekkjum. Við höfðum orð á því hvernig þessi vélbúnaður allur hefði verið fluttur á staðinn og fengum þá skýringu að á vorin væri auðvelt að aka yfir jökulinn og alveg niður í dalinn, á snjó, ef búnaður væri réttur.
Við gengum glaðir til náða seint þetta kvöld og sváfum vel um nóttina.
Fimmtudagurinn 26. júlí.
Við vöknuðum snemma í glampandi sólskini og logni. Allt var eins og best var hægt að hugsa sér. Eftir að hafa borðað morgunskattinn ákváðum við að ganga létta fjallgöngu upp á Geirólfsnúp, eða Geirhólm sem er 433 m á hæð, en heimamenn nota yfirleitt síðara nafinð á fjallinu. Við ætluðum án bakpokanna og koma síðan aftur niður í Reykjarfjörð. Þetta var áætluð u.þ.b. 5 klukkustunda ganga. Það myndi passa nokkuð vel því að um kl. 4 um eftirmiðdaginn var fyrirhugað að taka sér far með Sundhananum til Norðurfjarðar en ekki langt þaðan (í Eyri við Ingólfsfjörð) beið bíllinn okkar.
Í Sigluvík. Yðar einlægur tók myndinaTil þess að komast upp á fjallið þurftum við að vaða Reykjafjarðarósinn sem er stærsta jökulsáin af þeim sem við höfðum áður vaðið.
Þar sem við vorum nú orðnir vanir að vaða jökulsár vorum við ekkert að hika við að vaða fljótið í sólskininu. Enda gekk það ágætlega. Eftir dágóða göngu ákvað Reynir að snúa við, þar eð skór hans voru farnir að valda honum einhverjum vandræðum.
Við hinir héldum för okkar áfram og gengum sem leið liggur fyrir Sigluvíkurnúpinn og inn í Sigluvík og upp á Skjaldarvíkurháls eftir góðum göngustíg. Ekki nenntum við í þetta sinn að ganga niður í Skjaldabjarnarvík, en lögðum þess í stað í að klífa upp á Geirhólm.
Útsýni af Geirhólmi til norðurs Horft af Geirhólmi í norður. Sjá má skjöld Drangajökuls efst til vinstri og Hornbjarg ofantil til hægri. Stóri fjörðurinn er Reykjafjörður en Sigluvík er næst okkur. Nesið fjær er Þaralátursnes en Þaralátursfjörður sést ekki. Fjörðurinn sem sést þar fyrir norðan er Furufjörður. Myndin er samsett úr tveimur og tekin af Ögmundi.Útsýnið þaðan var ógleymanlegt. Vel mátti sjá hvern einasta fjörð frá Hornbjargi og eins langt suður og auga eygði. Allur Dragnajökull var baðaður í sólskininu og Hrolleifsborgin, Hljóðabunga og Jökulbunga sköguðu upp úr jökulhettunni. Í austri sáum við yfir á Skagann og enn austar hvít fjöllin á Tröllaskaganum.
Sunnan við okkur voru Drangaskörðin frægu og Drangahlíðin, en fjallið Rönd náði rétt að skyggja á bæinn Dranga. Neðan við okkur mátti sjá slysavarnaskýlið og tóftir bæjarins í Skjaldabjarnarvík.Geirólfsgnúpur er með hæstu tindum sem skaga í sjó fram á öllu Norður-Strandasvæðinu og er 433 m á hæð. Sjálft Hornbjargið er þó100 metrum hærra.
Súmmað á DrangaskörðinÖgmundur og Þorkell efst á Geirhólmi. Hornbjarg í baksýn. Yðar einlægur tók myndina.Ögmundur og yðar einlægur efst á Geirhólmi. Hljóðabunga og Hrolleifsbunga í Drangajökli í baksýn. Þorkell tók myndinaÞegar til baka kom í Reykjarfjörðinn sáum við að Reykjarfjarðarósinn var orðinn að skaðræðisfljóti í sólarhita dagsins. Við urðum að fara nokkuð upp með ánni til að finna öruggari stað að vaða yfir. Nú urðum við að vaða næstum því upp í klof (a.m.k. stuttfóturinn ég) og straumurinn var uggvænlegur. Allt fór þetta samt vel og allir komust klakklaust yfir.
Við fengum okkur mat að borða, tókum svo niður tjöldin og biðum þess að Sundhaninn kæmi.
Sundhaninn kom nokkuð fyrr en við höfðum búist við. Ég hafði gengið dálítið upp í dalinn til þess að flatmaga í heitri laug af náttúrunnar hendi (í moldarlauginni) og varð ekki var við þegar báturinn kom, þannig að litlu munaði að ég yrði strandaglópur. Að mínu mati hefði það lítið gert til, því önnur ferð var í boði daginn eftir. Þetta athæfi mitt mun þó hafa gert félaga mína órólega sem vel er skiljanlegt. Lofaði ég að gera svona lagað aldrei aftur.
Eftir þriggja tíma siglingu suður með Norður-Ströndum tókum við land í Norðurfirði. Skipstjórinn, Björn frá Ósi skutlaði Ögmundi yfir að Eyri við Ingólfsfjörð til að sækja bílinn Dídí 121 sem beið okkar þar.
Þá var ekið um nóttina sem leið liggur suður í suddann í höfuðborginni Reykjavík og nærliggjandi héruðum.
Ferð þessi var í alla staði mjög skemmtileg og fræðandi. Við höfum mikið lært af nokkuð erfiðum kringumstæðum og hvernig ber að mæta þeim með réttum áherslum. Við vitum nú enn betur hvernig ber að útbúa sig og undirbúa þegar um nokkura daga gönguferðir um óbyggðir Íslands er að tefla.
Næsta ferð verður gönguferð frá Eyri við Ingólfsfjörð norður í Reykjarfjörð nyrðri (eða öfugt). Sú ferð er fyrirhuguð um svipað leyti næsta sumar. Í þá ferð förum við við reynslunni ríkari, og vonandi að einhverjir nýjir göngugarpar sláist með í förina til að kynnast af eigin raun þessari paradís óbyggðanna.
Karl Valgeir Jónsson.